Þessi norður afríski réttur er orðinn vinsæll víða í Evrópu. Þetta er léttur og skemmtilegur grænmetisréttur sem er tilvalinn sem dögurður eða sem léttur kvöldverður. Gott að bera hann fram með nýbökuðu brauði, baguette eða pita og hummus.
Shakshuka
(uppskrift fyrir 4-6)
½ rauð paprika skorin í bita
3 hvítlauksgeirar skornir smátt eða kramdir
ferskt chili skorið smátt (eða chili duft) að smekk hvers og eins
6-8 tómatar. Gerið kross í tómatana og leggið í heitt vatn í nokkrar mín. Þá er auðvelt að afhýða þá. Tómatarnir því næst skornir í bita.
1 msk Marokkóskt fiskikrydd Kryddhússins
½ msk cumin malað
½ msk paprika möluð
Saltið vel og piprið eftir smekk
1 msk tómat púrra
½-1 msk hrásykur/hunang
6-8 egg
Lúkufylli af ferskri steinselju
Svitið paprikuna ásamt fersku chili á heitri pönnu með aðeins af olíu í 3-4 mín. Því næst er hvítlauknum bætt út í, passið að brenna hann ekki og þar næst kryddinu bætt saman við. Tómatpúrran hrærð út í og að lokum fersku tómatarnir. Nauðsynlegt að setja sætu t.d. hrásykur/hunang til að vinna á móti sýrunni í tómat púrrunni. Allt látið malla í góða stund og hrært í. Það er gott að setja aðeins af vatni út í sósuna ef hún verður of þykk. Smakkið ykkur til með kryddið ásamt salti, pipar og sætu (hrásykur/hunang). Lækkið hitann og látið malla undir loki í góða stund og bætið vatni út í ef þarf. Þegar sósan er tilbúin til að bera fram brjótið þá eggin varlega út í, eitt í einu og sjóðið þau í sósunni í nokkrar mín. eða þar til þeirri áferð er náð sem óskað er eftir. Gott að hafa þau aðeins linsoðin.
Stráið ferskri steinselju yfir allt saman og berið fram með nýbökuðu brauði.