Þessi vegan steik er snilld að gera og hana má bera fram með uppáhaldsmeðlæti hvers og eins. T.d. fer sveppasósa mjög vel með henni eða ostasósa fyrir þá sem eru ekki vegan en velja grænmeti í stað kjöts. Þessa steik er ekkert mál að gera en tekur smá undirbúning eða öllu heldur tíminn sem hún er inn í ofni er nokkuð langur eða 2.5 klst annað er ekkert mál. Það er gott að krydda hana aðeins eins og hverja aðra steik og voila! Veganistinn/grænkerinn á heimilinu verður ekki vonbrigðum!
Takið sellerírót og hreinsið hana vel af trefjum og mold með t.d. bursta. Þerrið vel og pikkið í hana með gaffli allan hringinn a.m.k. 40 sinnum. Setjið hana í eldfast mót og hellið vel af olíu og makið vel af henni yfir sellerírótina. Hún er svo sett í 170C heitan ofn (með viftunni á) í 2-2.5klst. (eldunartími fer eftir stærð rótarinnar). Það er gott að ausa af olíunni yfir hana annað slagið í ofninum yfir eldunartímann. Gott að láta hana hvíla í amk 20 mín áður en hún er skorin í u.þ.b. 1-1.5cm sneiðar og pennslað yfir hverja sneið með olíu (tilvalið að nota olíuna sem er í eldfasta mótinu ef einhver er eftir eldunina) og kryddi eins og t.d. Cajun eða annað eftir smekk. Saltið aðeins og piprið og setjið steikarsneiðarnar undir grillið efst í ofninum í 5-8 mín eða þar til þær eru aðeins gullnar. Snúið þá steikunum við og grillið á hinni hliðinni.