Þessa hátíðarmáltíð er svo auðvelt að gera að þeir sem eru að stíga sín fyrstu spor í eldhúsinu ættu endilega líka að prófa! Það er hægt að vinna sér í haginn með því að pikkla rauðlaukinn deginum áður eða að morgni dags og byrja á að græja rótargrænmetið eftir að hafa kryddað kjötið. Á meðan rótargrænmetið er í ofninum er gott að gera rauðvínsglazinn og að síðustu steikja kjötið. Svo má skella rótargrænmetinu undir grillið efst í ofninum, hita sósuna upp á meðan nýeldað kjötið er hvílt, taka pikklaða rauðlaukinn úr ískápnum og úr verður sannkölluð hátíðarmáltíð með lítill fyirhöfn!

Kryddið lambakórónuna með Villibráð og lamb kryddblöndunni. Gott að skera rákir í fituna ofan á vöðvanum, dreypa aðeins yfir af ólífuolíu og nudda kryddinu vel á kjötið og í rákirnar á fitunni. Gott að láta hvíla í kæli yfir nótt en þó ekki nauðsynlegt.

Saltið (nauðsynlegt að salta vel með t.d. góðu sjávarsalti þar sem það er ekki salt í kryddblöndunni okkar) og piprið kjötið rétt áður en því er skellt á heita pönnu og brúnað á öllum hliðum. Því næst er kjötið sett í 160C heitan ofn í 15-20. mín eða lengur eftir smekk. Reglan er að lambakórónan nái 56C kjarnhita fyrir þá sem eru með kjötmæli en þetta er auðvitað smekksatriði. Gott að láta kjötið hvíla í a.m.k. 10 mín áður en það er skorið.

Himnesk rauðvínsglaze:

2 litlir skalotlaukar

2/3 bolli rauðvín

2/3 bolli nautasoð (t.d. tenginur leystur upp í heitu vatni)

2 góðar msk af sultu (ég notað bláberjasultu eða aðra berjasultu)

2 tsk sykur (það má sleppa sykrinum og setja hunang eða bara ekki en mér finnst sætan gera svo mikið fyrir sósuna að ég sykra og það má á hátíðarstundu! 😉 )

1 tsk þurrkuð Salvía

1-2 msk smjör

salt og pipar

Aðferð:

Skerið skalotlaukana smátt og svitið í smjöri í heitum potti. Hellið rauðvíninu út í og látið sjóða aðeins niður, þá nautasoðinu og látið sjóða aðeins niður sömuleiðis. Bætið við sultunni og sykri, salvíunni, salti og pipar. Látið allt sjóða saman í góða stund eða þar til þið eruð sátt við áferðina. Að síðustu er potturinn tekinn af hellunni og smjörinu bætt út í og hrært saman við. Smakkið sósuna til með salti, pipar og sætu ef vill.

Sjóðið sósuna niður um helming eða svo eða þar til þið eruð sátt með áferðina áður en smjörinu er bætt út í að síðustu.

Vel kryddað rótargrænmeti:

Skerið rótargrænmeti í grófa bita (ég nota hér næpur/parsnip, gulrætur, fennel, heilan hvítlauk, skalottlauk og salatlauk) og setjið í ofnskúffu/eldfast mót. Sáldrið vel af Rótargrænmetiskryddinu yfir og vel af ólífuolíu og bætið við salti og pipar eftir smekk. Nuddið kryddinu og olíunni vel á grænmetið. Hyljið með álpapír og setið inn í 220C heitan ofn í u.þ.b. 30 mín. Það er gott að taka álpappírinn af og setja grænmetið undir grillið efst í ofninum í nokkrar mín rétt áður en það er borið fram til að fá stökka áferð á það.

Vel kryddað rótargrænmeti er einfalt, dásamlega næringarríkt og ljúffeng meðlæti með öllum mat.

Pikklaður rauðlaukur:

1 rauðlaukur, skorinn mjög þunnt, gott að nota mandolín. Ég sker hann þversum.

2 msk Sumac

1/2 bolli vatn

4 msk eplaedik 

2 msk hlynsíróp eða meira ef vill

Skerið rauðlaukinn í þunnar sneiðar og stráið vel af Sumac yfir hann. Nuddið Sumac vel inn í laukinn. Setjið laukinn í hreina glerkrukku með loki. Hitið vatnið, eplaedikið og hlynsírópið í potti, upp að suðu. Takið af hellunni og látið mesta hitann rjúka úr áður en leginum er hellt yfir laukinn. Ef lögurinn hylur ekki laukinn má taka trésleif og þéppa honum aðeins þannig að allur laukurinn baðist í leginum. Setjið lokið á krukkuna og geymið í ísskáp. Tilbúið að borða eftir u.þ.b. 30 mín.

Pikklaður rauðlaukur geymist vel í lokuðu íláti á svölum stað og er góður með öllum mat.
Sumac er sérstaklega skemmtilegt krydd. En Sumac Kryddhússins eru ber sem eru þurrkuð og möluð og ekkert annað. Í mörgum löndum við Miðjarðarhafið er þekkt að taka lauk og skera hann í þunnar sneiðar og nudda vel af Sumac yfir hann og bera hann þannig fram sem meðlæti með öllum mat.
Hellið eplaedik- og hlynsírósleginum yfir laukinn og látið hann standa í a.m.k. 30 mín áður en hann er tilbúinn til að bera fram.
add_action( 'woocommerce_after_shop_loop_item', 'woocommerce_template_loop_add_to_cart', 20 );