Þessar ómótstæðilegu frönsku Flórentínur smakkaði ég um síðustu jól hjá góðri vinkonu sem er jafnframt mesta jólabarn sem ég þekki. Aðventan er ekki komin fyrr en ég hef heimsótt hana, þegið púrtvín og gómsætar smákökur í vandlega jólaskreyttu, fallega húsinu hennar.
Flórentínur sóma sér líka vel á hvaða veisluborði sem er eða bara við hvert tækifæri sem gefst til að hittast og gleðjast. Þær geymast vel í frysti og eru mjög auðveldar að baka þannig að það er ekki eftir neinu að bíða! 😉
150 gr caster sykur (eða venjulegur sykur sem er búið að setja í matvinnsluvél og tæta hann þar til hann er aðeins fínni en þó ekki fínn eins og flórsykur))
50 gr hunang
50 m rjómi
50 gr smjör
150 gr sykraður appelsínubörkur (candied orange peel) (fæst t.d, í Nettó)
200 gr möndluflögur
200 gr dökkt súkkulaði, brætt og Flórentínunum velt upp úr því að lokum
Aðferð:
Setjið sykurinn, hunangið, rjómann og smjörið í pott og sjóðið saman. Látið sjóða í nokkrar mín og takið þá af hellunni. Hellið möndlunum og appelsínuberkinum út í og blandið vel saman. Þetta verður svolítið þykkt og best að vinna með blönduna á meðan hún er enn heit. Setjið eins og 1 tsk af blöndunni í silikon muffinsmót og þrýstið aðeins niður með bakinu á teskeið sem búið er að bleyta eða með blautum fingrunum.
Bakið við 200C í u.þ.b. 12 mín (gott að kíkja eftir 10 mín og ef yfirborðið er orðið aðeins gullið þá eru þær tilbúnar). Látið kólna aðeins í mótinu og veltið því þá við og losið kökuna með því að þrýsta létt á botninn þá dettur hún út ef hún er orðin nógu köld.
Þegar kökurnar hafa kólnað er þeim dýpt til helminga í brætt súkkulaði
Þær geymast í lokuðu íláti í kæli í nokkra daga en gott að eiga þær í frysti.
Gott að taka út úr frysti 20-30 mín áður en þær eru bornar fram.