Chimmichurry Kryddhússins er argentísk kryddblanda og er klassík þar í landi. Argentínubúar eru þekktir fyrir úrvals nautakjöt og chimmichurry og í þeirra huga er annað ómissandi án hins! Þeir bera fram nautasteikina með bakaðri kartöflu og Chimmichurry! Chimmichurry er grillsósa sem inniheldur kryddjurtir í ólífuolíu og mismunandi útgáfur eru mjög þekktar í löndum Suður ameríku og spænskumælandi löndum. Chimmichurry grillsósan svipar mjög til Mojo (upprunalega frá Kanarýeyjum og vinsæl á m.a. Kúbu og í Portúgal) og ítölsku Salsa verde. Allar þessar grillsósur eiga það sameiginlegt að ólífuolían er grunnurinn og svo eru það kryddjurtir, hvítlaukur og chili og ýmist edik eða sítrusávextir sem er blandað út í olíuna. Yfirleitt er notast við ferskar kryddjurtir en þar sem þær eru ekki alltaf við hendina hér á landi þá er Chimmichurry kryddblanda Kryddhússins algjör snilld. Hlutföllin eru 1 hluti kryddblanda á móti 4 hlutum af olíu. Sósan á að vera svolítið fljótandi og því er gott að bæta út í hana ólífuolíu ef hún hefur staðið þar sem þurrkuðu kryddjurtirnar drekka í sig vökvann og bólgna út. Þá er hún bragðbætt með ediki og eða sítrónusafa og salti.
Chimmichurry grillsósan er næringarrík og dásamlega bragðgóð og hana má bera fram með öllum grillmat og brauði. Einnig ljúffengt að sáldra henni yfir salatið! Best er að gera hana í góðan tíma og jafnvel að láta hana hvíla í lokuðu íláti inn í ísskáp yfir nótt til að kryddjurtirnar mýkjist vel og bragðið taki sig til fullnustu.
Uppskrift:
1 hluti Chimmichurry kryddblanda
4 hlutar ólífuolía
aðeins af ediki (gott að nota rauðvíns edik) eða sítrónusafa eða bæði.
aðeins af salti
Öllu blandað vel saman og geymt í lokuðu íláti á svölum stað. Grillsósan geymist í raun eins lengi og olían þránar ekki. Gott að gera sósuna í góðann tíma áður en neytt er þannig að kryddjurtirnar og kryddið mýkist vel og bragðið taki sig til fullnustu.
Þessi kryddblanda er dásemdin ein til að krydda íslenska lambið með og einnig ljúffeng á kjúkling. Hér setjum við hana á risarækurnar til að undirstrika hve gaman það er að leika sér með krydd og mismunandi brögð og til að minna á að vera óhrædd/ur við notkun á kryddi.
Grillaðar Shawarma risarækjur
Shawarma kryddblandan sett saman við olíu. Risarækjunum velt upp úr kryddleginum og þær þræddar upp á grillteina (ef notast er við grillteina úr tré/bambus er gott að láta þá liggja í vatni áður). Saltið vel og piprið og grillið á vel heitu grilli í nokkrar mínútur á hvorri hlið.
Gott að bera fram hvort sem er heitt eða kalt sem aðalrétt. Fallegt að bera teinana fram á salatbeði sem forrétt.
Sumac eru ber sem vaxa á trjám í heitum löndum allt frá austur asíu og Afríku til norður ameríku. Sumac gefur súrt, sítrus og frískandi bragð í allan mat og er tilvalið til að krydda hvers kyns mat sem fer vel með sítrónu eins og t.d. kjúkling, fisk, salat. Það er mjög mikið notað í Miðausturlöndum, löndum eins og Líbanon, Íran, Sýrlandi og Tyrklandi.
Sumac berin hafa einnig verið nýtt vegna litarefnis síns, til að lita t.d. leður enda bera þau fallegan og sterkan rauðan lit.
Það er vinsælt að sáldra kryddi eins og sumac, papriku, za´atar og eða cumin yfir hummus ásamt ólífuolíu í löndum þar sem hummus er daglega á borðum.
Einnig er vinsælt til að búa til frískandi límonaði eða „Pink lemonade“ úr ferskum sumac berjunum. En þá eru berin tekin og lögð eða kramin í vatni og hunangi eða annarri sætu bætt útí. Súrt og frískandi bragð berjanna smitast út í vatnið og úr verður himneskt límonaði.
Sumac frá Kryddhúsinu eru sumac berin þurrkuð og möluð og ekkert annað!
Dásamleg Sumac-salat-dressing:
1 dl kaldpressuð ólífuolía
1-2 msk hunang/síróp
1 tsk balsamic vineger (eða minna, fer eftir smekk)
eins og 1/2-1 tsk Sumac
Öllu hrært vel saman og smakkað til. Dressingin geymist vel í lokuðu íláti á köldum stað. Svo lengi sem olían þránar ekki er dressingin góð.
Hawaij þýðir einfaldlega kryddblanda á arabísku. Þessi bragðgóða kryddblanda er ættuð frá Jemen en Jemen er fornt menningarríki sem hagnaðist á verslun með kryddi. Hawaij er einnig mjög þekkt í Ísrael en þangað barst hún með jemenískum gyðingum. Allir Ísraelar þekkja súpu þar í landi sem kallast einfaldlega Hawaij eftir kryddblöndunni. Súpan inniheldur kjöt eins og kjúkling eða lamb og mikið af lauk og rótargrænmeti s.s. sellerý og gulrótum og jafnvel baunum og svo kryddblönduna góðu. Hún minnir aðeins á íslenska kjötsúpu nema hvað grænmetið er grófskornara og bragðið allt annað eða bragð Hawaij kryddsins. Það kemur mjög vel út að krydda baunsúpuna á Sprengidaginn með þessari kryddblöndu nú eða bara gömlu góðu íslensku kjötsúpuna!
Hawaij kryddblandan inniheldur m.a. krydd sem eru einkennandi fyrir arabísk sem og inversk eldhús eins og túrmerik, cumin, negul og kardamommur og minnir því svolítið á indverskt karrý sem vel flestum er svo kunnulegt. Hawaij er dásamleg kryddblanda í hvers konar súpur og pottrétti, í bauna- og grænmetisrétti og á lambakjötið.
Hér setjum við þessa skemmtilegu kryddblöndu á ofnbakað blómkál sem kemur mjög vel út bæði hvað varðar bragð og útlit!
Kryddað ofnbakað blómkál, frábært eitt og sér með Tahini eða sem meðlæti með öllum mat:
1 stór (eða 2 litlir) blómkálshaus settur á hvolfi í pott með sjóðandi heitu vatni og soðið í a.m.k. 8 mín (fer eftir stærð blómkálsins). Passið að mauksjóða ekki blómkálið þar sem það á eftir að fara inn í heitann ofn til að fá stökka, kryddaða áferð. Takið blómkálið upp úr vatninu eftir suðu og látið standa þannig að vatnið leki vel af því.
Á meðan blandið saman:
2-3 tsk Hawayij kryddblöndu Kryddhússins
1 msk hunang
u.þ.b. 4 msk ólífuolíu eða meira eftir þörfum.
Hrært vel saman og pennslað ríflega yfir blómkálið. Saltið blómkálið vel og piprið og setjið það í 180 gráða heitan ofn í 30 mín eða þar til gyllt og stökkt.
Ljúffengt að bera blómkálið fram með Tahini
Uppskrift:
u.þ.b. 2 góðar msk af Tahini (sesam smjör)
kalt vatn
sítrónusafi og sjávarsalt
Aðferð:
Hrærið Tahinið út með vatni. Byrjið á að setja aðeins lítið af vatninu og hræra saman við og svo bæta vatninu við smám saman og hræra saman við þar til þið hafið náð þeirri þykkt/áferð sem þið kjósið. Það er þægilegt að hræra þetta saman með töfrasprota eða í matvinnsluvél og tekur styttri tíma. Kreistið safa úr sítrónu út í og blandið vel saman við. Nauðsynlegt að salta aðeins og smakka sig til með sítrónuna og saltið.