Okkur finnst meðlætið ekki síður skipta máli en sjálf­ur aðal­rétt­ur­inn þannig að við erum alltaf með þó nokkuð af vel krydduðum meðlæt­is­rétt­um þegar við eld­um veislu­mat. Pikkluðu sinn­eps­fræ­in, kar­meliseraða hvít­kálið og sal­at­dress­ing­una má gera deg­in­um áður ef maður vill vinna sér í haginn. Þá er ekkert annað að gera en að krydda lambið að morgni Páskadags og stinga inn í ofn, sjóða kartöflurnar og leggja á borð. Dúllast svo með fjölskyldunni/vinunum yfir páskaeggjunum og málsháttunum og njóta máltíðarinnar seinna um daginn!

Páskalambið

½ stauk­ur Yfir holt og heiðar, ólífu­olía, salt og pip­ar.

Kryddið lærið vel með Yfir holt og heiðar krydd­blönd­unni, dreypið aðeins af olíu yfir allt sam­an og nuddið krydd­inu vel á lærið. Gott að krydda lærið dag­inn áður og láta það hvíla í ís­skáp þar til það er eldað. Hitið ofn­inn í 200°C. Setjið lærið í steikarpott eða ofnskúffu og saltið og piprið vel. Ofn­steikið í 45 mín við 200°C. Takið þá lærið út, gott að taka soðið frá fyr­ir sós­una. Pakkið lær­inu inn í bök­un­ar­papp­ír og því næst álp­app­ír yfir allt sam­an og lokið það vel af með álp­app­írn­um. Setjið lærið aft­ur inn í ofn­inn í aðra 2½ klst.

Nuddið vel af kryddileginum vel á lambið. Saltið vel og piprið eftir smekk.

Rjómasós­an
laukur, rjómi, sveppakraftsteningur, bláberjasulta og rauðvín eða annað áfengi (má sleppa), rósapipar og salt og soð af lambalærinu.

½ lauk­ur, fínsaxaður og u.þ.b. 50 g smjör sett í pott. Leyfið laukn­um að mýkj­ast í smjör­inu í dágóða stund. Bætið eins og 3 msk af hveiti út í pott­inn og hrærið vel sam­an við.
Leysið upp einn sveppakraftsten­ing í glasi af soðnu vatni og hellið út í pott­inn ásamt soðinu af lær­inu. Hellið rjóma út í og látið sós­una sjóða niður. Bragðbætið með eins og 2 msk. af blá­berja­sultu, aðeins af rauðvíni (eða öðru áfengi ef vill) og kryddið hana til með rósapip­ar og salti. Bætið við rjóma þar til ákjós­an­leg þykkt og áferð á sós­unni næst.
Ofn­bakað grasker með Tahini og Za’at­ar
1 grasker / butternut squash kjarn­hreinsað og skorið í grófa bita
1 rauðlauk­ur, skor­inn í báta eða skíf­ur
ólífu­olía
salt og pip­ar
u.þ.b. 3 msk. Tahini (ses­am­s­mjör)
safi úr hálfri sítr­ónu
vatn
hálf­ur hvít­lauks­geiri, kram­inn
30 g furu­hnet­ur
1 msk. Za’at­ar
lúku­fylli af stein­selju, grófskor­in

Hitið ofn­inn í 220°C. Skerið graskerið endi­langt, kjarn­hreinsið og skerið það í grófa bita. Skerið rauðlauk­inn í báta/​skíf­ur og setjið í skál ásamt grasker­inu. Dreypið aðeins af ólífu­olíu yfir, saltið vel og piprið og nuddið vel á græn­metið. Setjið græn­metið í ofnskúffu og ofn­bakið í 30-40 mín. Passið að lauk­ur­inn brenni ekki áður en graskerið er til­búið. Takið úr ofn­in­um og setjið til hliðar. Ristið furu­hnet­urn­ar á pönnu með ör­lít­illi ólífu­olíu og ör­litlu salti. Gott er að hafa háan hita og hræra í svo til stöðugt og passa þannig að ekki brenni við. Setjið furu­hnet­urn­ar til hliðar á meðan þið gerið dress­ing­una. Hrærið sam­an tahini, sítr­ónusafa og vatni í skál ásamt hvít­laukn­um og saltið ör­lítið. Þetta á að vera á vera þannig á þykkt­ina að hægt sé að hella þessu með góðu móti yfir græn­metið. Stráið Za’at­ar og stein­selj­unni yfir græn­metið, hellið tahini­dress­ing­unni yfir allt sam­an og stráið furu­hnet­un­um að síðustu yfir áður en borið fram.
Gaman að eiga pikkluð sinnepsfræ inn í ískáp. Þau eru ljúffeng með öllum mat og jafnvel ofan á brauð!

Pikkluð sinn­eps­fræ

Þessi upp­skrift kem­ur frá vini okk­ar, mat­reiðslu­meist­ar­an­um Jó­hanni Inga Reyn­is­syni.

250 ml borðedik150 g syk­ur

75 ml vatn

1 tsk. anís­fræ

1 kar­dimomma (gott að merja hana aðeins í hýðinu og opna hana þannig)

1 tsk. rós­marín, þurrkað eða ferskt

1 tsk. timí­an, þurrkað eða ferskt

2 stauk­ar sinn­eps­fræ (eða 130 g)

Allt nema sinn­eps­fræ­in sett í pott og soðið upp. Látið sjóða þar til syk­ur­inn hef­ur leyst upp eða í bil 5-10 mín. Hellið heit­um leg­in­um yfir sinn­eps­fræ­in og látið kólna við stofu­hita í lokuðu íláti. Geym­ist vel í lokuðu íláti á köld­um stað. Sinn­eps­fræ­in eru síuð frá leg­in­um þegar þau eru bor­in fram. Gott að gera þetta a.m.k. degi áður til að fræ­in mýk­ist og krydd­bragðið njóti sín til fulls.

Kar­meliserað hvít­kál með cumin og eini­berj­um

100 g syk­ur

50 g smjör

u.þ.b. 75 ml rjómi

½ hvít­káls­höfuð, skorið í strimla

1 msk. eini­ber

1 tsk. cumin

salt og pip­ar

Sjóðið sam­an syk­ur og smjör í potti þar til það kar­meliser­ast. Passið að hræra stöðugt í til að ekki brenni við. Lækkið aðeins hit­ann, hellið rjóm­an­um út í og hrærið vel sam­an við. Setjið hvít­káls­strimla, eini­ber og cumin út í og látið sjóða í leg­in­um í 10-15 mín. eða þar til hvít­kálið er orðið soðið í gegn og lög­ur­inn soðinn niður. Saltið og piprið eft­ir smekk. Lög­ur­inn (ef ein­hver er) er sigtaður frá áður en borið fram.

Kryddaðar Tzatziki kart­öfl­ur í brenndu smjöri

Litl­ar kart­öfl­ur / smælki

1 tsk. túr­merik

½ tsk. paprika

50 g smjör

Tzatziki grísk krydd­blanda

salt og pip­ar

Sjóðið kart­öfl­urn­ar með hýðinu. Ég vel litl­ar kart­öfl­ur og sýð þær í litlu vatni þannig að það rétt þeki þær og set túr­merik og papriku út í vatnið. Það gef­ur bragð og lit í kart­öfl­urn­ar. Takið kart­öfl­urn­ar úr vatn­inu áður en þær eru al­veg full­soðnar og leggið til hliðar. Bræðið smjörið á pönnu við háan hita. Leyfið því að brenna aðeins og setjið þá kart­öfl­urn­ar út í og veltið þeim upp úr smjör­inu. Kryddið með Tzatziki, salti og pip­ar. Smart að merja þær aðeins á pönn­unni með kart­öflustapp­ara ef maður vill.

Spari-sítrus-sal­at­dress­ing með basilíku og vanillu

Við köllum þessa salatdressingu spari þar sem hún inniheldur sykur. Hún er svo sannarlega þess virði á hátíðisdögum eins og Páskum þegar maður vill gera extra vel við sig. Uppskriftina á Jó­hann Ingi Reyn­is­son mat­reiðslu­meist­ari.

100 g syk­ur

safi úr 2 sítr­ón­um

safi úr 1 app­el­sínu

safi úr 1 límónu

½ vanillu­stöng

1 tsk. basilkka þurrkuð

Bræðið syk­ur­inn í potti með ör­litlu vatni eða eins og 4 msk. Gott að standa yfir þessu og hræra í á meðan syk­ur­inn er að leys­ast upp til að ekki brenni við. Þegar syk­ur­inn er bráðnaður er ávaxta­safa og kryddi bætt út í. Gott að skafa kjarn­ann úr vanillu­stöng­inni út í pott­inn og setja líka hýðið eða sjálfa stöng­ina út í. Leyfið þessu að sjóða svo­lítið, takið síðan af hell­unni og látið kólna. Gott að sigta vökv­ann frá krydd­inu þegar dress­ing­in er orðin köld. Upp­runa­lega upp­skrift­in seg­ir að hella eigi bragðlausri olíu út í í smá­um skömmt­um og blanda vel sam­an með töfra­sprota. Ég sleppi því en ég dreypi alltaf ólífu­olíu á sjálft sal­atið ásamt aðeins af grófu salti og er svo með dress­ing­una á borðinu þannig að hver og einn geti hellt henni yfir sal­atið sitt. Þessi dress­ing geym­ist vel í lokuðu íláti á köld­um stað.

Gleðilega páska!
add_action( 'woocommerce_after_shop_loop_item', 'woocommerce_template_loop_add_to_cart', 20 );